Hrekkjavökugleði

Mér finnst svo gaman að halda heimboð, velja þema, baka, skreyta og undirbúa. Hrekkjavakan er sko engin undantekning. Hér eru nokkrar myndir úr gleðinni um helgina:

Bú!

Nýbúin að brjóta sykurglerið í bollakökurnar.

Þessi hnöttur átti að hýsa Jack Skellington kökupinnana. En fyrst þurfti að hrekkjavaka hann aðeins upp…

Svona! Mikið betra. Ég skar í hnöttinn til að hann kæmist betur fyrir í kassanum, spreyjaði heila klabbið með svörtu spreyji og gerði göt á hann hér og þar fyrir pinnana. Þess má geta að spreyjið leysti hnöttinn aðeins upp, þannig að það komu svona örlitlir gígar í hann. Það gerði ekkert til þar sem þemað var Hrekkjavaka og hann varð bara meira töff fyrir vikið, en þetta gæti skemmt fyrir við öðruvísi aðstæður og þemu.

Við létum það eftir okkur að fá okkur grasker. Hér er le eiginmaður að vinna í gripnum.

Og svona kom kallinn bara ljómandi vel út 🙂

Sykurglers bollakökurnar mínar heppnuðust ansi vel. Ég notaði djöflatertuuppskrift (afar viðeigandi) í kökurnar sjálfar og gerði ganache krem úr hvítu súkkulaði og rjóma. Einnig eru þær fylltar með ganache kreminu. Glerinu stakk ég þvínæst ofan í og skreytti svo með nokkrum dropum af heimatilbúinni hindberjasósu sem “blóð”.

Hér gefur að líta mestann hlutann af veisluborðinu. Nánast allt komið á borðið, búið að kveikja á kertum, köngulóavefur í glugganum, rauðvín og vodka fyrir þá sem vildu í flöskum með hrekkjavökulegum merkingum (“swamp fog”=rauðvín og “vampire fangs” sem hvítvín.  Af því vodka brennir hálsinn. Æi whatever, næst finn ég eitthvað sem passar betur, en miðarnir voru bara svo töff).

Það gekk ansi hægt að gera kökupinnana, súkkulaðið í pennanum mínum storknaði í stútnum og vildi ekki leysast upp, þrátt fyrir langa dvöl í heitu vatnsbaði. Less than ideal verð ég að segja.

Meiri djöflatertubollakökur, en með súkkulaði- og hnetusmjörskremi. Þeir standa á kökustandi sem ég gerði sjálft og spreyjaði svarta fyrir gleðina. Ef ætlunin er að nota diska til búa til þinn eiginn kökustand skaltu passa að velja matta diska. Annars festist spreyjið ekki á. Það lærði ég af reynslunni.

Nærmynd af sykurglers bollakökunum mínum. Draugarnir í bakgrunninum.

Ég bað Erlu vinkonu að pósa aðeins fyrir mig með sykurglers bollakökuna sína. Hún gerði það svo snilldarvel að kærastinn hennar stóðst ekki mátið og laumaði sér í myndina á síðustu stundu. Vel gert!

Advertisements

Perutertu bollakökur

Fyrst að þetta blogg heitir einu sinni La Vie en Cupcake (eftir laginu La Vie en Rose eftir Edith Piaf) þá datt mér í hug að setja eins og eina færslu um bollakökur.

NB þá finnst mér nafngiftin bollakökur yfir cupcakes vera óþjált. Of margir stuðlar:

Boll-Ak-Ök-Ur

Ég vildi að orðið smákökur væri ekki upptekið. Ef einhver er með betra (eða bara annað) orð yfir þessar elskur, endilega deilið því með mér.

Anyways…

Þetta er basically peruterta í bollakökuformi. Þessar eru mjög einfaldar, ég fór (nánast alveg) eftir uppskriftum frá kjánaprikunum. Hérna eru þær:

 • 4 egg
 • 150gr sykur
 • 150gr hveiti
 • 1 tsk lyftiduft

Kremið:

 • 50gr suðusúkkulaði (notaði eina plötu eða 100 g Síríus Konsúm súkkulaði)
 • 3 eggjarauður
 • 4 msk flórsykur (cirkaði þetta)
 • 1 peli rjómi (cirkaði líka þetta því ég var með stærri einingu)
Ég stífþeytti egg og sykur, sigtaði saman hveiti og lyftiduft og blandaði saman við eggjahræruna. Setti svo ca 3/4 af deiginu í hvert muffinsform, þá rísa þær svona glæsilega upp úr forminu.  Það á að baka þær við 180-200°C. Ég hitaði ofninn í 200°C og lækkaði hann svo niður í ca 180°C þegar kökurnar fóru í ofninn (trikk af Pinterest) í ca 20 – 25 mín.
Kremið gerði ég alveg eins og leiðbeiningarnar sögðu til um hjá kjánaprikunum: þeytti og geymdi í kæli, bræddi og kældi súkkulaðið, þeytti eggjarauðurnar og flórsykurinn vel saman (í nýju KitchenAid hrærivélinni minni ;)), blandaði súkkulaðinu (tiltölulega) varlega saman við og bætti að lokum þeytta rjómanum við með sleikju.
Hérna eru þær sætar og nýkomnar úr ofninum. Ég leyfði þeim að kólna að herbergishita til að það yrði auðveldara að skera þær.
Svo skar ég með stórum kjöthníf í þær frá hlið, ýmist fimm eða sexhyrning. Hvort þú endar í fimm eða sexhyrningi er ekkert heilagt, svo lengi sem þú skerð holu úr kökunni.
Svo er bara að ná bitanum úr. Ég notaði hnífinn, ekkert mál.
Svo var komið að því að setja fyllinguna í sárið. Fyrst hellti ég smávegis af perusafa ofan í og passaði mig að hella ekki í botninn heldur bara í hliðarnar og leyfa þyngdaraflinu að sjá um rest. Annars gæti botninn orðið of blautur.
Svo setti ég bitann aftur á og ca eina matskeið eða svo af kremi ofaná.
Eitt sem þarf að passa upp á:  að skera ekki of djúpt niður, annars gæti komið gat í botninn vegna bleytunnar frá perunum, safanum og kreminu.
Ég opnaði eina stóra dós (1 kg) af perum fyrir þetta, sem var of mikið magn. Ég skar perurnar í litla bita til að koma þeim auðveldlega fyrir í kökunum. Það væri líka hægt að skera aðeins stærri bita og hafa einn slíkan í hverri köku. Svona er auðvelt að stýra magninu af perum sem fer í hverja köku. le eiginmaður bað t.d. um að 0 g af perum færu í hans kökur. Ég varð að sjálfsögðu við þeirri beiðni 😉
Annað sem mér persónulega finnst sjálfgefið en virðist eitthvað vefjast fyrir sumum: það er í lagi að borða þessar með gaffli, sérstaklega ef þær eru mjög háar 😉

Jack Skellington kökupinnar

Ég hlakka svo til Hrekkjavökunnar og hef verið að undirbúa ýmislegt í tilefni dagsins. Ég var alveg ákveðin í að hafa eitthvað heimagert nammi fyrir þessa krakkagrislinga sem banka upp á (ég er sem betur fer ekki ein um að finnast Hrekkjavakan skemmtileg ;)). Í netvafrinu hef ég meðal annars fundið þetta. Ég dýrkaði The Nightmare Before Xmas og var Jack Skellington í miklu uppáhaldi hjá mér í langan tíma eftir að myndin kom út! Þessir kökupinnar eru mjög einfaldir, það eina sem þarf er:

Pinna (ég keypti mína í Allt í Köku)

Súkkulaðipenna (e. Candy Writer, fæst líka í Allt í Köku)

Hvítt súkkulaði

Einhverskonar hringlaga kökur (ég steikti svoleiðis sjálf til að fá nákvæmlega stærðina sem ég vildi, af uppskrift sem ég fann af netinu. Og breytti smá. Ofc. ;)) Hérna er uppskriftin:

 • 113 g smjör við herbergishita
 • 1/2 bolli af vatni (ég notaði 1/4 bolla vatn og 1/4 bolla ab-mjólk)
 • 5 tsk þurrger
 • 1/4 bolli sykur (held það megi vera aðeins meiri sykur)
 • 1/2 tsk salt
 • 1 bolli hveiti
 • 3 egg og eina eggjarauðu
 • börkur af einni sítrónu (ég notaði lime, átti ekki sítrónu)
 • Bætti líka við ca 30 mL af appelsínusafa, til að fá sterkara zest bragð.
 • 4 bollar af jurtaolíu (tll steikingar, ég notaði bara lítinn pott og setti einhvern slatta)
Ég byrjaði á að hita vatnið og blanda því saman við gerið, bætti út í smá sykri (fyrir gerinn) og lét blönduna svo í friði til að leyfa gerinu svo að virkjast aðeins, svona korter. Á meðan blandaði ég hin þurrefnin og lime börkinn saman í skál.
Þegar nægur tími var liðinn bætti ég þurrefnunum út í, og svo eggjunum. Passa að hræra ekki of lengi, annars myndast glúten þræðir sem gera deigið seigt. Ég hræri oftast ekki lengur en 2, 3 mínútur.
Svo leyfði ég deiginu að hefast.
Þegar deigið var tilbúið rúllaði ég því út á hreint borð með smávegis hveiti undir. Ég reyndi að hafa það jafnþykkt alls staðar og skar út litla sæta hringi með kökumóti, til að allir hausarnir yrðu jafnstórir.

Súkkulaði litapenninn minn. Hann virkaði bara mjög vel, nema hvað að það er sennilegra sniðugra að hita í vatnsbaði, til að súkkulaðið bráðni allt jafnt og fallega. Ég er alltaf svo óþolinmóð, hitaði í örbylgjunni á 800W í svona 30-40 sek. Ég ætlaði upphaflega að kaupa matarlitarpenna til að teikna andlitin með, en dömurnar frá Allt í Köku bentu mér á að það er erfitt að teikna á súkkulaði vegna þess að fitan hrindir litnum frá.

Ég vissi það alveg.

Hvítt bráðið súkkulaði, í yndislega kitch-aða pottinum mínum. Ég hef enga sérstaka formúlu við að bræða súkkulaði, set hitann bara á lægsta, hræri og slekk þegar nánast allt er bráðnað. Mér hefur aldrei tekist að brenna súkkulaði þannig að ég er ekki að fara að skipta um aðferð. Kannski má setja hvítan matarlit út í þannig að súkkulaðið verði hvítara. Ég gerði það allavegana ekki og Skellingtonarnir mínir voru áberandi gulari en hjá Cookbook Queen dömunni sem ég fékk hugmyndina hjá.

“Höfuðið” komið á pinnann.

Hérna sá ég að það má ekki hrista umfram súkkulaðið af of duglega, kúlan byrjaði að halla aðeins of mikið í aðra áttina…

Mér fannst hæfilegt að húða kúlurnar tvisvar með súkkulaði og skellti pinnunum í kæli í ca 10 mínútur þess á milli, og líka áður en ég fór að mála andlitið á hann.

Voila! Eitt stykki Jack Skellington á priki (eða fjögur reyndar í þessari umferð :)).

Ég steikti kúlurnar daginn áður og stakk inn í frysti, til að þurfa ekki að gera allt sama daginn. Allt svona er auðvitað langbest nýsteikt, en ef það fer strax í frysti þá er lítill munur á. Ég sverða…

Einhverntímann ætla ég að prófa að gera svona með sykurmassa. Þá væri hægt að teikna andlitið á með matarlit í staðinn fyrir súkkulaði, sem er örugglega talsvert snyrtilegra. En þá þarf ég fyrst að massa sykurmassatækni.

Gone bakin

Í tilefni af afmæli systur minnar langaði mig að baka þessa köku handa henni, en uppskriftina er að finna á þessari vefsíðu. Þessi kaka er algert monster:

Mér finnst svo gaman að svona hnallþórum, og því hærri sem þær eru því skemmtilegra 😉

Uppskriftin er hér að neðan. Ég fylgdi leiðbeiningunum meira og minna, með nokkrum smávægilegum breytingum; ég skipti út buttermilk eins og ráðlagt var á síðunni (ég er hvort sem er ekki með á hreinu hvað “buttermilk” er, eða hvort hægt er að kaupa hana á Íslandi) fyrir gríska jógúrt og jurtaolíu (1:1) og skipti vatninu út fyrir  ab-mjólk. Mér finnst vatn gefa þurra og óspennandi áferð meðan ab-mjólk gerir kökuna létta og mjúka, ekta Betty Crocker áferð 😉

Hvað varðar kremið þá gerði ég nákvæmlega eins og segir í uppskriftinni. Ég var ekki alveg að treysta því að rjóminn yrði ekki að smjöri við að þeyta hann með sykri í, (frekar basic örugglega fyrir marga ;)) þannig að ég leiðbeiningar hérna.

En.

Ég þorði ekki að treysta á að þeyttur rjómi mundi standa undir öllum þessum lögum (þetta átti ekki að gerast aftur). Þannig að þetta smjörkrem fór á milli laganna og utan um kökuna þeytta-rjóma kremið utaná.

 • Í kökuna:
 • 1 bolli smjör (ca. 227 g)
 • 2 bollar vatn (eða 1 bolli jurtaolía + 1 bolli ab mjólk)
 • 1 bolli jurtaolía (ekki extra virgin)
 • 3 bollar strásykur
 • 1 bolli kakó
 • 4 bollar hveiti
 • 4 stór egg
 • 1 bolli buttermilk eða grísk jógúrt
 • 1 msk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 1 msk vanillusykur eða vanilludropar
 • Þeytta-rjóma kremið:
 • 4 bollar rjómi
 • 1 1/4 bolli flórsykur
 • Súkkulaðið:
 • 100 g dökkt súkkulaði (ég notaði Siríus Konsúm súkkulaði, uppáhald á þessu heimili :))
 • 1/2 bolli rjómi
 • 2 msk sýróp (Lyle’s Golden er mjöög gott)
 • 2 tsp vanilla (ég sleppti þessu)
Svona leit deigið út þegar ég var búin að hræra. Eftirá að hyggja má alveg sleppa olíunni, þetta er frekar þykkt deig og hún gerir ekki mikið til að þynna. Auk þess varð kakan svolítið stökk en olían hefur einmitt þau áhrif.
Þetta er olían sem ég notaði í uppskriftina. Bara venjuleg sólblómaolía. Ég er jafn hrifin af öllum olíum öðrum en maísolíum og extra virgin olíum, sem ég held að sé ekki notað í bakstur (gæti vel verið rangt hjá mér). En ég reyni aðforðast maís og vörur sem innihalda maís, útaf þessu.

Gríska jógúrtin. Ég er mjög hrifin af henni í matargerð, en hugsa að ég noti bara ab-mjólk í staðinn næst. Hún er líka með þessa lifandi gerla sem eru svo góðir fyrir meltinguna… nema hvað að þeir lifa sennilega ekki af bökunina. Oh well.

Kakan hefaðist mjög vel. Kannski notaði ég aðeins of mikið lyftiduft…

Svo var komið að því að jafna kökuna. Þá er toppurinn tekinn af, til að fá beinni línu og fallegri köku. Þennan fann ég í IKEA en það er örugglega hægt að fá svona á mörgum stöðum.

Hún var soldið vel stökk, ég þurfti smá hjálp frá einhverju með biti til að byrja. Annars hefur verið nóg að bíða bara þar til kakan hefur náð herbergishitastigi, en til að tryggja að ég skemmi hana ekki þá byrja ég alltaf svona.

Voila!

Þetta er ósköp einfalt: kaka, krem, kaka, krem. Kakan þarf að vera alveg kólnuð því annars bráðnar kremið í burtu og maður fær allavega lagaða köku sem er sennilega blaut í miðjunni… til að tryggja að það gerðist ekki, og að kremið héldi kökunni uppi og rynni ekki í burtu, þá var ferlið eftirfarandi; kaka, krem, kælir í 10 mín, kaka, krem o.sfrv. Svona smjörkrem stífnar vel inni í kælinum og lögin haldast á sama stað.

Ég er alveg að meta þessa spaða sem ég keypti til að slétta krem með.

Á efsta lagið fara svo súkkulaðihúðuð jarðaberin. Afgangurinn súkkulaðinu fór svo á kökuna. Það er mjög mikilvægt að bíða þar til súkkulaðið hefur náð stofuhita, annars bræðir það kremið. Persónulega yrði ég MJÖG gröm út í sjálfa mig að klúðra einhverju á lokastiginu…

Voila!

Ég væri alveg til í að prófa að hafa lögin þynnri og hafa jafnvel fleiri lög í staðinn. Hún fékk viðurnefnið Willie Wonka kakan í boðinu, því hún varð ekki fullkomlega lóðrétt eins og ég hafði ætlað henni að verða. Efsta lagið er áberandi þynnst, ég veit ekki alveg hvað ég var að hugsa þarna…

Kakan var svo stór að ég var viss um að meira en helmingurinn mundi skemmast, en eftir afmælisveisluna fór ein frænka mín með afganginn til annarrar frænku minnar. Sú fór svo með kökuna í vinnuna daginn eftir þar sem hún var kláruð. Mömmu þótti hún góð, en betri á öðrum og þriðja degi. Ég er nokkuð sátt 🙂

Afmælisboð

Mér finnst alveg virkilega gaman að baka og nýti mér tækifærið eins oft og mögulegt er. Þegar ég varð þrjátíu-og-þriggja í september síðastliðinum þá bauð ég að sjálfsögðu heim. Ég bakaði fjögurra laga súkkulaðiköku með eggjahvítukremi og smjörkremi og þrjár mismunandi tegundir af bollakökum. Hér eru myndirnar úr boðinu:

Hindberja og gulróta bollakökur, á standi sem ég setti saman sjálf, en aðferðina fann ég á þessari vefsíðu.

Svona forláta gamlir trékassar gera mikið til að skapa rétta andrúmsloftið. Kassinn undir glerflöskunum var upphaflega undir Johnny Walker viskýflöskur. Ég fann hann í Kolaportinu, pússaði og hvíttaði mjög lauslega svo stafirnir sæust áfram.

Kassann undir brauðið keypti ég nú bara tilbúinn í Húsasmiðjunni.

Mig hefur lengi langað í svona litlar glerflöskur, en fannst fáranlegt að sérpanta svoleiðis af netinu fyrir einhvern (allt of mikinn) pening þegar ég gat einfaldlega fundið eitthvað sætt í næstu matvörubúð. Þessar eru upphaflega undir Froosh (fást m.a. í Hagkaup). Það kostaði smávegis vinnu að fjarlægja miðana. Ég notaði kveikjuvökva (og uppþvottahanska, kveikjuvökvi er algert eitur) og þvoði flöskurnar svo vel með fuuuullt af sápu eftirá auk þess sem þær fengu að fara tvær ferðir í uppþvottavélina áður en ég þorði að nota þær undir matvæli.

Nýji ostabakkinn minn. Ég pússaði ósköp einfalda plötu, grunnaði hana og rúllaði með þremur lögum af krítarmálningu. Þannig gat ég skrifað nafnið á ostunum á bakkann sjálfan. Frekar töff en hugmyndina fékk ég héðan.

Kakan mín, sem átti að vera svo fín 😉 Hún reyndar náði alveg því takmarki, amk til að byrja með, en svo fór hún að halla í miðjunni, útaf eggjahvítukreminu. Mér sem fannst svo sniðugt að stífþeyta það og hafa á milli laganna til að halda þeim vel aðskildum. Ég gleymdi að með tímanum þá skilur eggjahvítan sig örlítið frá sykrinum…

Svo varð hún enn ójafnari vegna smjörkremsins sem ég hafði utan á, en það hélt sér alveg stórvel. Kakan var reyndar mjög bragðgóð. Og mjög moist, þökk sé öllu kreminu sem hvarf inn í hana. Live and learn, þetta fer bara í reynslubankann 😉

Eftirá að hyggja fannst mér fjólubláa skreytingin minna örlítið, bara pínkupons, á margfætlu… en það fannst það engum öðrum, eða, amk sagði enginn neitt, sem er nánast sami hluturinn 😉

Ég vildi hafa afslappað andrúmsloft og nógu mikið af einhverju girnilegu á boðstólum, ég held ég hafi nú alveg afrekað það 😉 Hvað finnst ykkur mikilvægt að muna í heimboðum?

13. ágúst 2011

Þannig að, ég gifti mig í sumar, 13. ágúst síðastliðinn. Það var í kringum brúðkaupsumstangið, ákveða þema, finna réttu hlutina o.s.frv. sem ég gerði mér grein fyrir að, mér finnst alveg fáránlega gaman að skipuleggja fagnað.

Ég safnaði hentugum flöskum, krukkum og dósum í um hálft ár, æfði uppsetningu með bónusblómum o.fl… sumar flöskurnar eru tilraunaglös sem átti að henda en Benni bjargaði úr vinnunni sinni… og þetta er afraksturinn.

Ég vildi ekki eyða miklum peningum í skreytingarnar og eins er ég ekki ,,fancy on the inside” eins og Phoebe (Friends) orðaði það svo skemmtilega þarna um árið 😉 

Þessar myndir sýna að e-u leyti afraksturinn af vinnunni, fyrstu fjórar eru frá æfingaruppsetningu og afgangurinn er úr aktúal brúðkaupinu.

Við vorum með æææðislegan ljósmyndara, Ólaf Þórisson, sem tekur leiðbeiningum MJÖG vel og hefur gott auga fyrir öllu sem er fallegt. Og smáatriðum og svona. Anyways…

Einstaka borð gátu skartað forláta leikfangabílum (sem ég held reyndar að hafi aldrei átt að vera leikföng per se…) sýróps- og lyftiduftskrukkur í bakgrunni og mynd frá 2010 af okkur Benna á Fimmvörðuhálsi.

Þessar myndir eru frá Óla:

Hárið liðaði ég sjálf en ég lærði pottþétta aðferð til þess á þessari vefsíðu. Þessar perlur voru utan um ljósaseríu sem tengdó keypti og hélt upp á. Komu sér ansi vel því ég vildi ekki vera með slör en vildi hafa eitthvað fallegt um hárið.

Stígvélin sem ég fékk í jólagjöf fyrir þremur árum. Pössuðu vel við kjólinn, sem við mamma hönnuðum (aðallega ég) og saumuðum (algerlega mamma) 🙂

Ég hannaði og gerði perlufestina. Vinkona mín (sem er förðurnarfræðingur) sá um förðunina.

Krítartöflunni sem við Benni gerðum var komið fyrir á gjafaborðinu. Pússa -grunna-rúlla með krítarmálningu, done!

Hluti af skreytingunum sjást þarna. Ég hefði viljað hafa fleiri myndir af skreytingunum, en þær eru víst ekki aðalatriðið í brúðkaupi (fékk samt 360 myndir sko, ekkert smáræði) 😉

Glervaran og dósirnar innihéldu ýmist: hnetusmjörs m&m kúlur (uppáhalds), kirsuber, blóm eða sprittkerti. Borðin voru hulin með: kartöflustrigapoka efni neðst, svo hvítt og matt akríl efni og dökkbrúnt tull (hvítur dúkur neðst).

Hello world!

Á þetta blogg ætla ég að setja afrakstur hugarmynda minna í grafískum heimildum (ljósmyndir). Þökk sé digital er hægt að láta myndir nánast tala fyrir sig, fyrir litla fyrirhöfn og pening (ég er að sjálfsögðu að meina EFTIR að búið er að fjárfesta í  MJÖG dýrri myndavél).

Eftirleiðis ætla ég að vera rosalega dugleg að #1: í framkvæma hugarfóstrin mín og #2: koma þeim út í heiminn í staðinn fyrir að geyma þau áfram í hausnum á mér, sjálfri mér og fjölskyldunni til eilífs hugarangurs. Það er ekkert endalaust pláss þar hvortsemer. Þegar ég verð stór ætla ég að skipuleggja viðburði fyrir aðra. Og baka bollakökur.

Toody-effin-loo

Much lov

Berglind

Eða, berglind.

Það er töff.

Ok bæ.